top of page

Gamalt dót fær nýtt líf – í litríku listaverki fyrir barnið þitt

Stafrói varð til árið 2021 út frá einfaldri spurningu: Þarf heimurinn virkilega meira dót?
Við vissum svarið – nei. Of mikið plast endar í ruslinu og fjöldi leikfanga lifir stutt og gleymist fljótt. Þess vegna vildum við skapa eitthvað sem væri fagurt, persónulegt og umhverfisvænt – óróa með nafni barnsins sem byggir á hringrásarhugsun frá upphafi til enda.

Með frumkvöðlaorku og sérfræðiþekkingu Plastplans, íslensks hönnunarfyrirtækis og plastendurvinnslu, tókum við hugmyndina alla leið. Plastplan hlaut Hönnunarverðlaun Íslands árið 2022 fyrir sína framsýnu nálgun á hönnun og efnahringrás – ekki bara fyrir það sem er vel gert, heldur líka fyrir það sem er rétt gert, eins og dómnefndin orðaði það.

 

Við sækjum ónýt og brotin leikföng til Góða Hirðisins og endurvinnum þau af natni.

Plastið er flokkað eftir litum og brætt í sérsmíðuð stálform sem móta fallega stafi og form, hönnuð af grafíska hönnuðinum Gabríel Markan. Hver Stafrói er þannig einstakur — engin litasamsetning er eins, og enginn órói er eins.

Stafrói er 100% íslensk hönnun – endurunnin, endurvinnanleg og persónuleg.

 

Frumkraftur Heillaverks

Stafrói er hugmynd og hönnun frá fyrirtækinu Heillaverk, sem var stofnað af Margréti Stefánsdóttur árið 2017. Margrét býr að áratugareynslu úr íslensku atvinnulífi og hefur komið að markaðssetningu og ímyndarmálum margra af helstu vörumerkjum landsins – þar á meðal sem markaðsstjóri Bláa Lónsins, upplýsingafulltrúi Símans og ráðgjafi í markaðs- og kynningarmálum hjá Háskóla Íslands.

Frá leikfangi í list

Ferðalag Stafróa hefst

Ónýt leikföng frá Góða hirðinum

Við fáum ónýt leikföng sem koma brotin frá heimilum á Íslandi og seljast ekki hjá Góða hirðinum. Við stuðlum að efnahringrásinni með því að ná í þessi ónýtu leikföng áður en þau enda í ruslinu.

Leikföngin mulin og brædd hjá Plastplan

Leikföngin frá Góða hirðinum eru mulin hjá frumkvöðlafyrirtækinu Plastplan og plastið flokkað eftir litum. Litablandan er síðan sett í bræðslu í stálform sem hafa verið sérhönnuð til þess að framleiða stafi og form hönnuð af Gabríel Markan, grafískum hönnuði. 

Einstakur órói verður til

Stafrói er handunnin með hjálp vélabúnaðar hjá Plastplan. Hann er settur saman eftir óskum hvers og eins með sérnafni og völdum formum til þess að fegra barnaherbergi eða annað rými.  

+354 8929960

  • Facebook
  • Instagram
bottom of page